Selfyssingar unnu sinn fyrsta leik síðan í 3. umferð þegar liðið heimsótti Hauka á Vodafonevöllinn í kvöld. Lokatölur 2-3.
Leikurinn einkenndist af stöðubaráttu á upphafsmínútunum og fátt var tíðinda þar til Sævar Þór Gíslason fór meiddur af velli 15. mínútu eftir samstuð við Daða Lárusson, markvörð Hauka. Sævar lá rotaður eftir árekstur þeirra og fór af velli í kjölfarið. Þegar leið á leikinn fóru Haukar að valda usla í vörn Selfoss og fyrsta markið kom á 21. mínútu þegar Alexandre Garcia slapp innfyrir og vippaði yfir Jóhann í markinu.
Fjórum mínútum síðar jafnaði Stefán Ragnar Guðlaugsson leikinn fyrir Selfoss með skallamarki eftir hornspyrnu og Bolou Guessan kom Selfoss yfir á 29. mínútu. Bolou kom inná fyrir Sævar Þór og var frískur í framlínunni. Staðan var 1-2 í hálfleik en Selfyssingar náðu heldur betur að snúa leiknum sér í vil síðari hluta fyrri hálfleiks.
Haukar voru ákveðnari í upphafi seinni hálfleiks og áttu sláarskot snemma. Jöfnunarmarkið átti Guðjón Pétur Lýðsson eftir góðan sprett upp völlinn á 65. mínútu. Bæði lið áttu góð færi eftir þetta en sigurmarkið kom á 75. mínútu. Agnar Bragi Magnússon kom þá knettinum í netið eftir mikinn atgang í vítateig Hauka uppúr hornspyrnu. Fimm mínútum síðar fékk varamaðurinn Bolou Guessan sitt annað gula spjald en þrátt fyrir að vera manni færri héldu Selfyssingar út fram að lokaflautinu og unnu mikilvægan sigur.