Haukar sigruðu Aftureldingu með sex mörkum, 27-21, í úrslitaleik Ragnarsmóts karla í handbolta í dag.
Eftir jafnan fyrri hálfleik var staðan 10-8, Haukum í vil. Þeir byrjuðu seinni hálfleikinn vel og sigur þeirra var í raun aldrei í hættu, lokatölur 21-27. Selfyssingurinn Guðmundur Árni Ólafsson var markahæstur hjá Aftureldingu með 5 mörk en Tjörvi Þorgeirsson skoraði 6 fyrir Hauka.
ÍBV sigraði Selfoss í vítakastkeppni
ÍBV sigraði Selfoss í vítakastkeppni eftir spennandi leik um 3. sætið. Lokatölur urðu 31-32. Leikurinn var í járnum nær allan leikinn og hvorugt liðið náði að slíta sig frá hinu. Eyjamenn leiddu með einu marki í hálfleik 14-15 og staðan eftir venjulegan leiktíma var 26-26. Því þurfti að grípa til vítakastkeppni þar sem ÍBV skoruðu úr öllum sínum köstum en Selfyssingar brenndu af einu vítakasti.
Arnór Logi Hákonarson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Tryggvi Þórisson skoraði 5, Elvar Elí Hallgrímsson, Guðjón Baldur Ómarsson, Guðmundur Hólmar Helgason og Ísak Gústafsson skoruðu allir 3 mörk. Vilius Rasimas varði 11 skot og var með 31% markvörslu og Alexander Hrafnkelsson varði 7 skot og var með 54% markvörslu.
Hákon Daði Styrmisson var markahæstur hjá ÍBV með 7 mörk og Dagur Arnarson skoraði 6.
Fram í 5. sæti
Í leiknum um 5. sætið sigraði Fram Stjörnuna 27-23. Staðan í hálfleik var 12-9. Framarar héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og héldu Stjörnunni í þægilegri fjarlægð frá sér allan seinni hálfleik. Hafþór Vignisson skoraði 8 mörk fyrir Stjörnuna og Adam Thostensen 4 fyrir Fram.