Haukar skoruðu í blálokin

Eftir sex leikja sigurhrinu töpuðu Selfyssingar 2-1 í kvöld í 1. deild karla í knattspyrnu þegar þeir heimsóttu Hauka á Ásvelli.

Selfyssingar byrjuðu betur í leiknum og Jón Daði Böðvarsson kom þeim yfir á 8. mínútu. Viðar Kjartansson átti þá góðan sprett upp hægri kantinn og fyrirgjöf sem endaði með skoti frá Babacar Sarr. Markvörður Hauka varði skot hans en Jón Daði var mættur í frákastið og böðlaði boltanum yfir línuna.

Haukar voru ekki lengi að svara því jöfnunarmark þeirra kom á 14. mínútu og eftir það var leikurinn í járnum.

Staðan var 1-1 í hálfleik en Selfyssingar voru líflegri fyrri hlutann í seinni hálfleik. Babacar Sarr átti skalla í þverslána og skömmu síðar skallaði Endre Brenne rétt yfir. Þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum átti Jón Daði hjólhestaspyrnu að marki en inn vildi knötturinn ekki.

Haukar hresstust nokkuð á síðasta korterinu og þeir skoruðu sigurmarkið á 89. mínútu og unnu þar með sinn fyrsta heimaleik í sumar.

Með sigrinum minnkuðu Haukar forskot Selfyssinga í 2. sæti á pakkann þar fyrir neðan niður í fjögur stig. ÍA er á toppnum með 31 stig, Selfoss hefur 22, Fjölnir 18 og Haukar og Þróttur 17.

Fyrri greinBjörgunarvaktin skipti sköpum
Næsta greinÖryggi aukið við Múlakvísl