Haukar stungu af í seinni hálfleik

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 5/1 mörk

Selfoss heimsótti Hauka á Ásvelli í úrvalsdeild kvenna í handbolta í kvöld. Haukakonur reyndust sterkari í leiknum og sigruðu 29-20.

Selfoss skoraði fyrsta mark leiksins en á eftir fylgdu sjö mörk í röð frá Haukum. Selfoss náði að minnka muninn í 8-5 og munurinn hélst í 3-4 mörkum fram að hálfleik. Staðan í leikhléi var 15-10.

Haukar gerðu út um leikinn í upphafi seinni hálfleiks en þær náðu fljótlega átta marka forskoti og eftir það var von um endurkomu Selfyssinga lítil.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 5/1 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 4, Hulda Hrönn Bragadóttir 3, Hulda Dís Þrastardóttir 3/2, Harpa Valey Gylfadóttir og Eva Lind Tyrfingsdóttir 2 og Arna Kristín Einarsdóttir 1.

Ágústa Tanja Jóhannsdóttir átti góðan leik í marki Selfoss, varði 14/1 skot og var með 43% markvörslu.

Selfoss er í 4. sæti deildarinnar með 13 stig en Haukar í 2. sæti með 24 stig. Næsti leikur liðsins er gegn Gróttu á heimavelli næstkomandi laugardag.

Fyrri greinGestirnir skoruðu sex mörk á Selfossvelli
Næsta greinSex Íslandsmeistaratitlar á MÍ 11-14 ára