Kvennalið Selfoss er úr leik í bikarkeppninni í handbolta eftir 29-39 tap gegn úrvalsdeildarliði Hauka í 16-liða úrslitum í SET-höllinni á Selfossi í kvöld.
Selfyssingar stóðu í Haukunum framan af leiknum, um miðjan fyrri hálfleikinn var staðan 7-8 en þá komu fjögur mörk í röð frá Haukunum. Selfoss reyndi þá að spila 7 á móti 6 en það gekk illa og margir tapaðir boltar skiluðu Haukum öruggri forystu. Staðan var 13-19 í hálfleik.
Haukar höfðu örugg tök á leiknum í seinni hálfleiknum, Selfyssingar áttu reyndar margar fínar sóknir en tókst ekki að minnka muninn.
Roberta Strope var markahæst Selfyssinga með 11 mörk, Tinna Sigurrós Traustadóttir skoraði 7, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 3, Tinna Soffía Traustadóttir og Elín Krista Sigurðardóttir skoruðu báðar 2 mörk og Rakel Hlynsdóttir, Inga Sól Björnsdóttir, Kristín Una Hólmarsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu allar 1 mark.
Mina Mandic varði 6 skot í marki Selfoss og Dröfn Sveinsdóttir varði 1/1 skot.