Það var boðið upp á magnaða keppni í tveimur fyrstu umferðum Íslandsmótsins í torfæru, þegar Sindratorfæran fór fram á Hellu um síðustu helgi.
Haukur Viðar Einarsson á Heklu var maður helgarinnar því hann sigraði í báðum umferðunum og vann Hellu bikarinn sem stigahæsti keppandinn. Haukur leiðir því Íslandsmótið eftir tvær umferðir. Það var æsispenna á toppnum alla helgina en nýi mótorinn í Heklunni var að virka vel og Haukur tryggði sér sigurinn á laugardeginum í síðustu braut.
Þórður Atli Guðnýjarson þekkir gryfjurnar á Hellu vel, enda nánast alinn upp í þeim, og hann náði frábærum árangri á laugardeginum og landaði 2. sætinu eftir hörkukeppni við Inga Má Björnsson, en aðeins skildu átta stig þá að í 2. og 3. sætinu.
Hafi einhverjum þótt laugardagskeppnin góð þá var 2. umferðin á sunnudeginum ennþá meira spennandi. Aftur var Haukur Viðar mættur í toppbaráttuna og háði harða keppni við Geir Evert Grímsson. Úrslitin réðust í mýrinni þar sem Haukur komst á flug en Geir Evert náði ekki að klára. Haukur tók því gullið aftur, 35 stigum á undan Geir sem þurfti að gera sér silfrið að góðu. Nýliðinn Jón Reynir Andrésson náði síðan þriðja sætinu eftir harða keppni við Skúla Kristjánsson, ríkjandi Íslands- og heimsmeistara, sem varð fjórði.
Hjörtur Leví Pétursson tók myndirnar hér fyrir neðan.