Handknattleiksmaðurinn stórefnilegi, Haukur Þrastarson, varð fyrir því óláni að fingurbrotna í leiknum gegn Haukum í Olísdeildinni á Selfossi á sunnudaginn.
Haukur staðfesti þetta í samtali við mbl.is í dag. Haukur hefur átt frábært tímabil með Selfossliðinu en hann hefur skorað 82 mörk í 18 leikjum og er einn sterkasti varnarmaður liðsins.
„Ég braut fingur á skothendinni og kem væntanlega til með að vera frá keppni í sex vikur. Það er ansi svekkjandi að missa af næstu leikjum okkar í deildinni og bikarhelginni,“ sagði Haukur í samtali við mbl.is.
Haukur kemur til með að missa af síðustu fjórum leikjum Selfyssinga í deildinni og verður fjarri góðu gamni í bikarhelginni í Laugardalshöll 9.-10. mars en Selfoss mætir Fram í undanúrslitunum.