Haukur gengur til liðs við Kielce

Haukur Þrastarson skoraði 11 mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Handknattleiksmaðurinn Haukur Þrastarson frá Selfossi mun ganga í raðir pólska stórliðsins Kielce næsta sum­ar en pólsk­ir fjöl­miðlar greindu frá því í morgun að Haukur hafi gert þriggja ára samning við félagið.

Hauk­ur, sem er 18 ára gamall, var hjá Kielce í sept­em­ber þar sem hann skoðaði aðstæður og ræddi við for­ráðamenn liðsins. Hann er talinn einn efnilegasti handknattleiksmaður í heiminum í dag og hefur verið lykilmaður í liði Íslandsmeistara Selfoss undanfarin ár.

Hauk­ur var val­inn besti leikmaður­inn á EM 18 ára landsliða á síðasta ári en hann hefur leikið 12 A landsleiki og skorað í þeim 15 mörk.

Kielce er ríkj­andi meist­ari í Póllandi, áttunda árið í röð. Liðið hefur orðið bikarmeistari 11 ár í röð og sigraði í Meist­ara­deild Evr­ópu fyr­ir þrem­ur árum.

Haukur er ekki fyrsti Selfyssingurinn sem mun leika með Kielce því hornamaðurinn geðþekki, Þórir Ólafsson, lék með liðinu árin 2011 til 2014.

Fyrri greinStyðja við byggingu fimm leiguíbúða í Árnesi
Næsta grein„Maður verður að viðhalda gleðinni þegar álagið er mikið“