Eftir fjóra tapleiki í Bestu deild kvenna í röð unnu Selfyssingar sanngjarnan sigur á Stjörnunni á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur urðu 2-1.
„Þetta er risastórt fyrir okkur, bæði liðið og alla sem starfa hjá félaginu. Ég er stolt af því hvað við lögðum mikið á okkur í kvöld, það er ekki auðvelt að tapa leikjum ítrekað en við höldum í vonina og erum jákvæðar og héðan í frá liggur leiðin upp á við,“ sagði markaskorarinn Jimena López í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Það dró til tíðinda á 14. mínútu þegar Selfoss átti sitt fyrsta skot að marki. Nýr framherji liðsins, Barbára Sól Gísladóttir, hirti boltann af varnarmanni Stjörnunnar og lét vaða af löngu færi. Glæsimark og því var vel fagnað.
Stjarnan ógnaði lítið en náði þó að jafna metin með skallamarki Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur á 28. mínútu en Selfyssingar létu þetta ekki slá sig út af laginu. Þær fengu aukaspyrnu sex mínútum síðar og Sigríður Theodóra Guðmundsdóttir sendi boltann beint á kollinn á Jimena López sem stangaði hann í netið.
Staðan var 2-1 í hálfleik og færin urðu ekki mörg í seinni hálfleik. Stjarnan komst nær því að skora en Idun-Kristine Jörgensen varði frábærlega frá Gunnhildi Yrsu á 64. mínútu og fleiri færi fengu Stjörnukonur ekki.
Þrátt fyrir sigurinn er Selfoss ennþá í botnsæti deildarinnar með 7 stig, einu stigi frá öruggu sæti en fyrir ofan eru ÍBV með 7 stig og Tindastóll með 8 stig.