„Ég er ekki nógu ánægður með þennan leik,“ sagði Auðun Helgason, aðstoðarþjálfari Selfoss eftir leikinn gegn Breiðabliki. „Þetta voru vonbrigði, við höfum spilað betur það sem af er sumri.“
Hann segir að leikurinn hafi verið í jafnvægi fram að fyrra markinu. „Síðan vorum við að brenna okkur á því að dekka ekki menn í föstum leikatriðum“ sagði Auðun.
Liðið átti erfitt uppdráttar eftir það. „Svo vorum við í basli í seinni hálfleik og þegar við lentum tveimur mörkum undir fór allur vindur úr okkur,“ sagði Auðun sem var á því að mörkin hefðu verið ódýr. „Annað markið var svo hrikalega ódýrt að það hálfa væri nóg.“
Í seinni hálfleik féll Babacar Sarr inni í vítateig Breiðabliks eftir baráttu við markvörð Blika og vildu Selfyssingar fá víti. „Það hefði breytt leiknum að fá víti og mark,“ sagði Auðun var á því að það hefði átt að dæma víti. „Við erum núna búnir að sjá þetta á videói og þá er maður ennþá meira sannfærður um að þetta sé víti.“
Babacar Sarr þurfti að fara útaf eftir þetta atvik vegna meiðsla. „Hann meiðir sig á ökklanum við þetta. Það er erfitt að segja til með þannig meiðsli fyrr en eftir tvo, þrjá daga,“ sagði Auðun. „Við vonum að þetta séu bara örfáir dagar.“
Næsti leikur Selfoss í bikarkeppninni gegn Njarðvík á fimmtudaginn eftir viku. Auðun býst ekki við miklum breytingum fyrir þann leik. „Ég á ekki von á því, enda eru að mestu leyti hlutirnir í lagi,“ sagði Auðun sem vill þó sjá meira frá sínum mönnum. „Menn eru að leggja sig fram en við þurfum samt að gera enn betur ef við ætlum að ná þessum stigum.“