Sigmundur Stefánsson á Selfossi verður sjötugur fimmtudaginn 2. febrúar næstkomandi. Hann ætlar að halda upp á daginn með 70 kílómetra áheitahlaupi í samvinnu við Fríska Flóamenn.
„Mig hefur alltaf langað til að gera eitthvað á afmælinu mínu, hef alltaf verið mikið í útiveru og útivist og vil helst tengjast því. Þannig að það varð úr núna að hlaupa bara 70 kílómetra á 70 ára afmælinu mínu. Ég ákvað að hafa þetta áheitahlaup, þar sem ég hef á síðustu tveimur árum gengið í gegnum krabbameinsmeðferð og þriðju hjartaþræðinguna. Þannig að hlaupið er til styrktar Hjartaheill og Krabbameinsfélagi Árnesinga. Þetta eru málefni sem standa mér mjög nærri,“ segir Sigmundur í samtali við sunnlenska.is.
Þetta er bara bilun
Sigmundur fékk fyrsta hjartaáfallið 47 ára gamall, þegar hann var að undirbúa sitt fyrsta maraþonhlaup.
„Ég fór í þræðingu og varð að fresta maraþonhlaupinu en ég sagði við Ingileifu konu mína að ég myndi bara taka maraþonið þegar ég yrði fimmtugur, ef ég næði heilsu. Það var oft sagt, þegar menn lentu í þessu á sínum tíma, að þeir ættu í framhaldinu að taka því rólega og að maður færi ekkert af stað aftur. En ég vildi halda mínum lífsstíl og þegar ég var 49 ára var ég kominn í það gott form að ég hljóp Laugaveginn og síðan hélt ég áfram og hef hlaupið tæplega 40 maraþon, 50 hálfmaraþon og þrjá járnkarla á 23 árum. Þetta er bara bilun,“ segir Sigmundur og hlær.
Lífið er ekki búið
Þegar Sigmundur var kominn hátt á sextugsaldurinn var hann farinn að finna vel fyrir hjartanu aftur.
„Þá er þessi kransæðastífla að byrja aftur og ég fór í þræðingar sem gengu ekki nógu vel, og í þessu ferli uppgötvast síðan að að ég er kominn með krabbamein í blöðruhálskirtilinn. Þannig að ég fer á undan hjartaaðgerðinni í geislameðferð sem ég lauk í lok árs 2020 og er síðan kallaður inn í opna hjartaaðgerð um miðjan júní 2021. Það gekk vel og ég er allur annar síðan.“
Eftir hjartaaðgerðina fór Sigmundur að huga að því hvernig hann gæti haldið upp á sjötugsafmælið.
„Ég fór rólega af stað en eftir skíðaferð um miðjan febrúar í fyrra setti ég allt á fullt í undirbúningi fyrir afmælishlaupið og er búinn að hlaupa um 2.000 kílómetra síðan þá. Mig langar svo mikið til að vekja fólk til umhugsunar um það að lífið er ekki búið þó að maður lendi í svona hremmingum og að maður getur haldið áfram þaðan sem frá var horfið. Undirbúningurinn fyrir afmælishlaupið hefur gengið vonum framar þrátt fyrir rysjótt tíðarfar í desember. Færið er reyndar ekki spennandi en mér hefur ekki orðið misdægurt í vetur, ekki fengið kvefpest einu sinni og ekkert fundið fyrir hjartanu,“ segir Sigmundur kátur.
Allir í sjöunda himni
Allir áhugasamir eru hvattir til að hlaupa með Sigmundi, eða ganga einn eða fleiri hringi, en á klukkutíma fresti mun hann hlaupa af stað frá Sundhöll Selfoss.
„Hlaupið byrjar á milli Tryggvagötu 20, þar sem ég er fæddur, og æskuheimilisins á Tryggvagötu 22. Miðpunktur hlaupsins verður síðan Sundhöll Selfoss sem var vinnustaður minn í áratugi. Ég vann hjá bænum í 36 ár, bæði í sundhöllinni og hjá leigubústöðunum, þannig að þetta er mér svolítið tengt og ég fæ góðan skilning frá forstöðumönnum hér og frá sveitarfélaginu og fleiri aðilum sem eru að styðja þetta og styrkja,“ segir Sigmundur.
Hann ætlar að hlaupa sjö kílómetra hring, tíu sinnum, og kallar hringinn Simmaling.
„Þetta er orðaleikur og vísun í heimaling, af því að þetta er minn heimahagi. Ég hleyp hringinn alltaf á heila tímanum héðan frá sundlauginni. Ég byrja klukkan sjö, hleyp kílómetrann á sjö mínútum þannig að ég er 49 mínútur með hvern hring og fæ 10-11 mínútur í hvíld á milli. Þetta verður semsagt 70 ára, 70 kílómetrar, tíu sinnum sjö kílómetra hringur, á hraðanum sjö, allir í sjöunda himni og svo verður boðið upp á 7up á eftir, ég fékk Ölgerðina með mér í það,“ segir Sigmundur brosandi.
Bara spurning um hausinn
Frískir Flóamenn sjá um framkvæmd hlaupsins ásamt Sigmundi en hann er einn af stofnendum hlaupahópsins og þjálfaði þar um árabil. Inni á Facebooksíðu Frískra verða upplýsingar um áheitasöfnunina, þar sem hægt er að komast beint inn á áheitasíður Hjartaheilla og Krabbameinsfélagsins og greiða með korti milliliðalaust til félaganna.
„Á miðjum þorra á miðjum þorra getur allt gerst í veðrinu og maður liggur á bæn að veðrið verði í lagi. Við látum okkur hafa það, sama hvernig viðrar, nema það verði kannski of mikill snjór – og það fer eftir vindátt hvort við hlaupum hringinn rangsælis eða réttsælis. Ég er mjög spenntur, hlakka mikið til af því að ég er búinn að undirbúa mig vel. Ég hef reyndar aldrei hlaupið svona langt í einu í hlaupi en eins og í öllu öðru þá er þetta bara spurning um hausinn, þú verður að hafa trú á því að þú getir þetta og það verður mér enn meiri hvatning og gleði ef fólk vill vera með mér í þessu,“ segir Sigmundur að lokum.