„Hef verið heppnari í golfi“

Selfyssingurinn Hlynur Geir Hjartarson er í hörkubaráttu um stigameistaratitilinn á Eimskipsmótaröðinni í golfi. Lokaumferðin er leikin á Strandarvelli við Hellu um helgina.

Hlynur leiðir heildarstigakeppnina fyrir mótið og á möguleika á sigri ásamt þeim Sigmundi Einari Mássyni og Þórði Rafni Gissurarsyni. Sigmundur Einar stendur vel að vígi eftir fyrri daginn á Hellu og er í 2. sæti á 69 höggum, einu höggi á eftir Guðmundi Kristjánssyni úr GR.

Hlynur er í 11.-12. sæti á 72 höggum en til þess að eiga möguleika á stigameistaratitlinum þarf hann að komast upp í 6. sæti, ef Sigmundur heldur sínu striki á morgun.

Andri Már Óskarsson, GHR, er í 11.-12. sæti á 72 höggum, eins og Hlynur og Óskar Pálsson og Hjörtur Leví Pétursson, GHR, eru jafnir í 17.-18. sæti á 74 höggum.

„Dagurinn í dag var ágætur. Það kom okkur reyndar á óvart að það var hávaðarok og völlurinn grjótharður en ég var að spila ágætlega miðað við aðstæður. Ég hef reyndar alveg verið heppnari í golfi en ég var í dag,“ sagði Hlynur í samtali við sunnlenska.is.

„Á morgun einblíni ég bara á að spila mitt golf og vona að það dugi. Það eru fjögur högg í 1. sætið og þrjú í 2. sætið. Það er munur sem getur farið á tveimur þremur holum,“ sagði Hlynur ennfremur.

Fyrri greinÁrborg í góðum málum
Næsta greinHestakona meiddist