Selfyssingar hófu leik að nýju í Olísdeild karla í handbolta á heimavelli í kvöld, eftir 60 daga hlé. Topplið Hauka kom í heimsókn og úr varð hörkuleikur, þar sem Haukar höfðu betur.
„Við vorum góðir að mörgu leiti sóknarlega, en klúðrum rosalega mörgum dauðafærum. Það er samt margt fínt í leiknum, ágætur hraði og miðað við hraðann þá hefðum við átt að skora meira. Þetta er búin að vera erfið vika, við erum búnir að vera með fáa leikmenn á æfingum, þannig að takturinn hefur ekki verið frábær. En mér fannst við vera tiltölulega ferskir í dag og ég var ánægður með margt sem við höfum verið að vinna í,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Sveiflur í seinni hálfleik
Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik, mikill hraði og þar af leiðandi mikið af mistökum. Liðin skiptust á um að hafa forystuna en staðan var 13-12 í leikhléi, Selfyssingum í vil.
Í upphafi seinni hálfleiks urðu kaflaskil í leiknum þegar Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, gjörsamlega lokaði rammanum. Haukar náðu í kjölfarið fimm marka forskoti en Selfyssingar náðu að minnka það niður í eitt mark á lokakaflanum. Þeim entist þó ekki þróttur í að jafna eða komast yfir og Haukar spiluðu betur úr stöðunni undir lokin og unnu þriggja marka sigur, 27-30.
Rasimas ferskur í rammanum
Ragnar Jóhannsson og Einar Sverrisson voru markahæstir Selfyssinga með 5 mörk, Hergeir Grímsson, Atli Ævar Ingólfsson og Árni Steinn Steinþórsson skoruðu allir 4 mörk, Tryggvi Þórisson 2 og þeir Sölvi Svavarsson, Ísak Gústafsson og Richard Sæþór Sigurðsson skoruðu allir 1 mark.
Vilius Rasimas var frábær í marki Selfoss með 19/2 varin skot, en það dugði ekki til því markvörður Hauka gerði enn betur og varði 24/1 skot.
Selfyssingar hafa endurheimt Atla Ævar Ingólfsson og Sverri Pálsson úr meiðslum en í dag voru 999 dagar síðan Sverrir spilaði síðast keppnisleik. En það voru líka forföll, veiran hefur ekki látið liðið ósnert svo að einhverjir þurftu að sitja heima. Hinn ungi Sölvi Svavarsson kom til að mynda inn í hægra hornið í sínum fyrsta leik í efstu deild og stóð sig með prýði, sérstaklega varnarlega.