Stefán Ragnar Guðlaugsson, knattspyrnumaður úr Selfoss, hefur verið við æfingar hjá franska stórliðinu AS Monaco síðustu daga. Hann segist ekki vera að stressa sig á samningamálum í augnablikinu.
„Aðstæðurnar eru bara mjög fínar hérna. Það er ekki mikið pláss hér í Mónakó þannig að æfingasvæðið er uppi á fjalli. Það var frekar óþægilegt að fara á fyrstu æfingarnar þarna upp í rútu en það var fljótt að venjast,“ sagði Stefán í samtali við sunnlenska.is.
„Ég hef svosem ekkert heyrt hvernig þeim líst á mig en þeir vildu hafa mig í viku í viðbót þannig ég vona að það sé eitthvað jákvætt. Ég er ekkert að stressa mig á því núna, ég reyni bara að standa mig vel og framhaldið kemur svo bara í ljós með tímanum.“
Stefán æfir með varaliði Monaco og þeim leikmönnum aðalliðsins sem eru fyrir utan hóp í hvert skipti. „Æfingarnar eru á morgnana en einu sinni í viku er æft tvisvar á dag. Annars reynir maður bara að slaka á hérna á milli æfinga og skoða borgina,“ segir Stefán.
Hann segir Frakkana ekki vita mikið um Ísland fyrir utan að þekkja Eið Smára sem enn er samningsbundinn félaginu. „Þeir voru auðvitað búnir að frétta af eldgosinu, enda erfitt að komast hjá því en annars var það nú ekki mikið sem þeir vissu um Ísland. Það var reyndar einn Norðmaður hérna og hann þekkti nú nokkuð vel til Íslands,“ sagði Stefán Ragnar að lokum.