Heiðrún Anna Hlynsdóttir, kylfingur úr Golfklúbbi Selfoss og Styrmir Snær Þrastarson, körfuknattleiksmaður úr Ungmennafélaginu Þór, voru í kvöld útnefnd íþróttafólk ársins hjá Héraðssambandinu Skarphéðni.
Kjörinu var lýst á 100. ársþingi HSK sem fram fór í félagsheimilinu Þingborg í Flóahreppi í kvöld.
Heiðrún Anna er ein af fimm efstu íslensku konunum á heimslista áhugamanna í golfi. Hún endaði í 3. sæti á Íslandsmótinu í golfi sem er besti árangur Golfklúbbs Selfoss í kvennaflokki en hún var í topp 10 á öllum mótum GSÍ á síðasta ári og sömuleiðis á tveimur sterkum háskólamótum í Bandaríkjunum, þar sem hún er við nám. Heiðrún Anna var í landsliði Íslands í golfi á síðasta ári og spilaði með liðinu á Evrópumóti kvenna. Þetta er annað árið í röð sem Heiðrún Anna hlýtur þessa nafnbót hjá HSK.
Styrmir Snær er einn efnilegasti körfuboltamaður landsins og hann varð Íslandsmeistari með Þór árið 2021. Styrmir var valinn í úrvalslið Dominosdeildar KKÍ og einnig valinn besti ungi leikmaður Íslandsmótsins. Árið 2021 var Styrmir valinn í 20 ára landslið Íslands sem keppti í Eistlandi og auk þess keppti hann með karlalandsliði Íslands í lokaumferð forkeppni að HM 2023 í Eistlandi. Í haust hélt hann svo til Bandaríkjanna og hefur spilað með Davidson Wildcats í háskólaboltanum í vetur.
Alls voru 27 íþróttamenn tilnefndir í kjörinu en íþróttanefndir innan HSK tilnefna íþróttamenn ársins í hverri keppnisgrein, sem koma svo til greina í valinu á íþróttakonu og -karli ársins.