Heiðrún Anna Hlynsdóttir, Golfklúbbi Selfoss, sigraði á fyrsta móti GSÍ mótaraðarinnar sem haldið var á Garðavelli á Akranesi um helgina.
Heiðrún Anna lék hringina þrjá samtals á 221 höggi (71-74-76) eða á fimm höggum yfir pari. Lokahringurinn var æsispennandi en Heiðrún Anna fór inn á hann með fimm högga forskot á næstu konu. Hún tapaði hins vegar sex höggum á fyrstu sex holunum og á 7. teig voru þrjár jafnar í 1.-3. sæti.
Heiðrún Anna tók á því í lokin og fékk þrjá fugla á síðustu sex holunum og sigraði að lokum með fimm högga forskot á Kristínu Sól Guðmundsdóttur úr GM, sem varð önnur.
Fleiri GOS-arar náðu góðum árangri á mótinu í karlaflokknum en Aron Emil Gunnarsson varð í 5. sæti á 68-76-72 höggum og Andri Már Óskarsson endaði í 9. sæti á 77-77-69 höggum.