Heiðrún og Breki íþróttafólk HSK 2020

Heiðrún Anna Hlynsdóttir. Ljósmynd/GSÍ

Sérstök valnefnd valdi kylfinginn Heiðrúnu Önnu Hlynsdóttur, Golfklúbbi Selfoss og júdómanninn Breka Bernhardsson, Umf. Selfoss, íþróttafólk ársins 2020 hjá Héraðssambandinu Skarphéðni.

Nítugasta og níunda ársþing sambandsins stendur nú yfir í fjarþingi og þar var valið kunngjört.

Þrátt fyrir ungan aldur er Heiðrún Anna fyrsta konan í GOS til að sigra mót á mótaröð GSÍ og spila með A-landsliði kvenna. Hún lék á síðasta ári á Evrópumóti kvenna í Svíþjóð þar sem íslenska landsliðið náði besta árangri Íslands frá upphafi á EM í golfi. Heiðrún varð á topp tíu á öllum mótum GSÍ á síðasta ári og var ein af fimm efstu íslensku konunum á heimslista áhugamanna í golfi á árinu 2020. Heiðrún varð klúbbmeistari Golfklúbbs Selfoss þar sem hún sló vallarmetið á fyrsta hring mótsins. Heiðrún stundaði nám í Coastal Carolina háskólanum í Bandaríkjunum og var lykilmanneskja í liði skólans í 1. deild bandarísku háskólamótaraðarinnar.

Breki Bernharðsson hefur verið fastamaður í íslenska júdólandsliðinu í -73 kg flokki á undanförnum árum. Hann varð í 3. sæti í sínum flokki á Reykjavíkurleikunum og í 9. sæti á Opna skoska júdómótinu í Edinborg og auk þess sem hann keppti á Opna danska júdómótinu í Vejle.

Fimmtán konur og þrettán karlar voru tilnefnd í kjörinu.

Fleiri verðlaun voru afhent á ársþinginu; Æskulýðsnefnd Hestamannafélagsins Sleipnis hlaut unglingabikar HSK, Golfklúbbur Selfoss hlaut foreldrastarfsbikar HSK og Ungmennafélag Selfoss sigraði í heildarstigakeppni sambandsins 2020. Þá var Sigmundur Stefánsson, Umf. Samhygð, útnefndur öðlingur ársins.

Breki Bernhardsson (t.v.) ásamt Agli Blöndal. Ljósmynd/UMFS
Heiðrún Anna og Breki með viðurkenningar sínar í Selinu í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinRjúfa einangrun ungmenna í tölvuleikjum
Næsta greinBarbára Sól og Dagur Fannar íþróttafólk Umf. Selfoss 2020