Selfyssingar eru komnir áfram í 2. umferð EHF-bikarsins í handbolta þrátt fyrir 27-26 tap gegn Dragunas á útivelli í Litháen í dag.
Selfoss vann fyrri leikinn með sex marka mun og það dugði til. Í 2. umferð mæta Selfyssingar Ribnica frá Slóveníu og fara leikirnir fram í október.
„Þetta var heilt yfir flottur leikur hjá okkur. Mjög flottur fyrri hálfleikur þar sem við förum inní hálfleik í stöðunni 12-12. Það kom þarna 10 mínútna kafli í byrjun seinni hálfleiks sem ég var ósattur við, en við komum til baka, sem sýnir karakter,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Dragunas náði mest fimm marka forskoti, 21-16, um miðjan seinni hálfleikinn og Patrekur var ánægður með hvernig Selfossliðið svaraði því.
„Við náðum að vinna muninn niður í eitt mark sem er gríðarleg flott. Þetta eru fjórfaldir meistarar og eru með mjög öflugt lið. Það sást á leikjunum í umspilinu hjá Íslandi gegn Litháum í vor fyrir HM hvað Litháarnir geta verið skeinuhættir. Svo munaði náttúrulega um Einar Sverrisson sem var ekki með okkur i dag, hann var frábær í fyrri leiknum,“ sagði Patrekur ennfremur.
Árni Steinn Steinþórsson var besti leikmaður Selfyssinga í dag, skoraði 6 mörk og var með níu stöðvanir í vörninni. Haukur Þrastarson skoraði 4 mörk, Hergeir Grímsson, Elvar Örn Jónsson, Atli Ævar Ingólfsson og Alexander Egan skoruðu allir 3 mörk, Guðni Ingvarsson 2 og þeir Richard Sæþór Sigurðsson og Sverrir Pálsson skoruðu sitt markið hvor.
Pawel Kiepulski varði 6 skot í marki Selfoss og var með 23% markvörslu og Helgi Hlynsson varði 2 skot og var með 22% markvörslu.
Tuttugu og tveggja manna hópur stuðningsmanna fylgdi liðinu til Litháen og er óhætt að segja að ánægja hafi verið með ferðina og góð stemmning í hópnum. Hér að neðan eru liðsmenn Selfoss og stuðningsmenn þeirra eftir leik.
Ljósmynd/Selfoss handbolti