Ungir heimamenn sigruðu í utanvegahlaupi og utanvegahjólreiðum sem keppt var í við Vík í Mýrdal í dag, samhliða Landsmóti UMFÍ 50+.
Á fjórða tug hlaupara þreytti rúmlega 10 km hlaup um helstu náttúruperlur í Mýrdalnum. Leiðin er falleg en krefjandi og það var Guðni Páll Pálsson frá Vík sem sigraði á rétt tæplega 45 mínútum. Guðni sagðist hafa verið mjög ánægður með hlaupið og allt hefði gengið upp hjá honum.
Í morgun var keppt í utanvegahjólreiðum þar sem hjóluð var 30 kílómetra leið frá Þakgili til Víkur. Þorsteinn Björn Einarsson frá Ytri-Sólheimum 2 kom fyrstur í mark á tæpri einni klukkustund og fjörutíu mínútum. Leiðin var erfið viðureignar en Þorsteinn Björn er í góðri þjálfum en hann hefur meðal annars verið kjörinn íþróttamaður USVS síðustu tvö ár.