Það var stórkostleg stemning á Selfossvelli í dag en talið er að á fimmta hundrað áhorfenda hafi mætt á Selfoss Classic, 75 ára afmælismót Frjálsíþróttasambands Íslands.
Hápunktur mótsins var kringlukastskeppni á heimsmælikvarða og henni lauk með sigri heims- og ólympíumeistarans Daniel Ståhl frá Svíþjóð. Ståhl lengdi sig jafnt og í fimmta kasti dagsins sló hann vallarmetið á Selfossvelli með lengsta kasti dagsins, 69,27 m. Gamla metið átti lærifaðir hans, Vésteinn Hafsteinsson, 67,64 frá árinu 1989.
„Þetta var frábær keppni og við erum búnir að eiga frábæra daga hérna á Selfossi og höfum kynnst rótunum hans Vésteins. Þetta var stórskemmtilegt og ég kem örugglega aftur. Vésteinn er besti kringlukastsþjálfari í heimi. Hann er hreinn og beinn og heiðarlegur og með mikla ástríðu fyrir íþróttinni. Hann er frábær náungi og við náum vel saman. Ég byrjaði að æfa hjá honum 2011, það hefur gengið upp og niður en að mestu leiti hefur þetta gengið vel hjá okkur,“ sagði Daniel léttur í samtali við sunnlenska.is eftir mótið.
Fínt að vinna tvöfalt
Vésteinn var sömuleiðis ánægður með mótið og frammistöðu sinna manna og sagðist ekki efast um að hægt væri að halda svona mót aftur á Selfossi.
„Fínt að vinna þetta tvöfalt og svo að Guðni Valur sé þriðji, þetta getur eiginlega ekki verið betra. Svo sló Daniel vallarmetið og það var eiginlega takmarkið hjá mér, ég var mjög ánægður með það. Ég er bara klökkur yfir því hvað komu margir að horfa og það var rosalega góð stemning hérna í dag,“ sagði Vésteinn í samtali við sunnlenska.is.