Hekla Katharína Kristinsdóttir varð heimsmeistari ungmenna í fjórgangi á Gautreki frá Torfastöðum á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem lauk í Austurríki um helgina.
Hekla fékk hæstu einkunn ungmenna í fjórgangskeppni Heimsmeistaramótsins þegar hún hlaut 7,27 fyrir skemmtilega sýningu. Þau fóru fáguðum og dansandi skrefum um völlinn eins og þau eru þekkt fyrir.
Agnes Hekla Árnadóttir á Vigni frá Selfossi reið fyrst í braut og áttu þau góða sýningu, hlutu að lokum 7,07 í einkunn og 20. sætið. Arnar Bjarki Sigurðarson og Röskur frá Sunnuhvoli áttu einnig fína sýningu og hlutu þeir 6,70 fyrir hana.
Hekla Katharína Kristinsdóttir átti frábæran dag á Gautreki frá Torfastöðum og varð efst allra ungmennanna í fjórganginum með 7,27 í einkunn í 13. sæti.
Í B-úrslitum bættu Hekla og Gautrekur um betur og urðu í 9. sæti með 7,53 í einkunn.
Hulda Gústafsdóttir og Kjuði frá Kirkjuferjuhjáleigu sigruðu í B-úrslitum með 7,70 í einkunn. Þau urðu í 6. sæti í A-úrslitum með 7,60 í einkunn, einu sæti á eftir Hinrik Bragasyni og Sigri frá Hólabaki sem urðu fimmtu með 7,80 í einkunn.