Ragnar Ágúst Nathanaelsson, Hvergerðingurinn í körfuknattleiksliði Þórs í Þorlákshöfn, er í A-landsliði Ísland sem leikur æfingaleik gegn Hollendingum í Þorlákshöfn í kvöld, föstudagskvöld kl. 19:15.
Ragnar og liðsfélagar hans í landsliðinu eru þessa dagana að undirbúa sig fyrir EuroBasket 2015 í haust og framundan eru tveir leikir gegn Hollendingum, sá síðari í Laugardalshöllinni á sunnudag.
Ragnar segir stemninguna í hópnum vera mjög góða. „Það er gott hljóð í mönnum, við höfum tekið hörkuæfingar og allir tilbúnir í þetta verkefni,“ segir Ragnar. Hann segir undirbúninginn þessa daga felast í að skoða sóknarleik liðsins í ljósi þess að það mun mæta mjög stórum leikmönnum í riðlinum í úrslitakeppninni.
„Við erum að fara yfir kerfi til að bregðast við því og þá erum við líka að vinna í að koma upp öflugu sjálfstrausti hjá liðinu,“ bætir hann við.
Og Ragnar er spenntur fyrir því að mæta Hollendingum í landsleik í Höfninni. „Mér finnst það algjör snilld, þetta er minn annar heimavöllur og það er líka gaman að taka landsleik á Suðurlandi,“ segir hann.
„Ég á ekki von á neinu öðru en að það verði gríðarleg stemmning á þessum leik og í raun held ég að Hollendingum muni bregða svolítið, bæði vegna þess í hvaða húsi þeir eru að fara að keppa, og svo hvernig stemmning mætir þeim,“ segir Ragnar landsliðsmaður um leikinn á föstudagskvöld.
Fyrri leikur liðanna fer fram í Þorlákshöfn kl. 19.15 föstudaginn 7. ágúst. Liðin æfa svo laugardag og hvílast og leika seinni leikinn sín á milli í Laugardalshöllinni sunnudaginn 9. ágúst kl. 16.00.
Þetta eru síðustu landsleikir íslenska liðsins hér heima en liðið fer á tvö æfingamót síðar í ágúst fyrir brottför til Þýskalands.
Í hollenska hópnum eru meðal annars fyrrum NBA-leikmaðurinn og fyrrum samherji Jóns Arnórs Stefánssonar, Henk Norel, en þeir léku saman hjá CAI Zaragoza á Spáni. Einnig eru þar að minnsta kosti tveir íslandsvinir sem leikið hafa hér á landi. KR-ingurinn Jason Dourisseau (2008-2009) er í hópnum sem og Sean Cunningham sem lék með Tindastól (2010-2011).