Knattspyrnuþjálfarinn Helena Ólafsdóttir hefur rift samningi sínum við kvennalið Selfoss og mun hún þjálfa lið FH í 1. deild kvenna næsta sumar.
Helena kom til liðs við Selfyssinga í fyrravetur og stýrði 1. deildarliðinu í úrslitaleiki um sæti í Pepsi-deildinni í sumar. Eftir úrslitaleikinn gegn Þrótti í haust sagði Helena í viðtali á sunnlenska.is að hún hefði fullan hug á að halda áfram þjálfun Selfoss. Selfyssingar staðfestu það nokkrum dögum seinna og tíðindin í dag koma því mjög á óvart.
Samningur Helenu var til tveggja ára en hún hafði samband við Selfyssinga í hádeginu í dag og bað um að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi sínum.
Helena hafði áður hafnað boði Þórs/KA um að þjálfa en samkvæmt heimildum sunnlenska.is föluðust að minnsta kosti fjögur lið eftir starfskröftum hennar.
Elvar Gunnarsson, í meistaraflokksráði kvennaliðsins, sagði í samtali við sunnlenska.is í kvöld að þjálfaramál liðsins yrðu skoðuð eftir helgi.