Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri fór fram í Kaplakrika í Hafnarfirði síðastliðinn sunnudag. HSK sendi bæði A og B kvennalið til keppninnar og A karlalið.
Lið HSK endaði í 5.sæti heildarstigakeppninnar en það var lið ÍR sem sigraði í bikarkeppninni. A Kvennalið HSK endaði í 2.sæti en B liðið í 9. sæti. A karlaliðið lenti í 8.sæti.
Helga Fjóla Erlendsdóttir varð tvöfaldur bikarmeistari. Hún sigraði í 60 m grindahlaupi á tímanum 9,35 sek og hún stökk hæst allra í hástökki þegar hún vippaði sér yfir 1,61 m.
Bryndís Embla Einarsdóttir varð bikarmeistari í kúluvarpi er hún varpaði kúlunni 11,13 m.
Anna Metta Óskarsdóttir fékk tvenn silfurverðlaun. Í 60 m hlaupi bætti hún sinn besta árangur þegar hún kom í mark á timanum 8,39 sek og í langstökki stökk hún 4,74 m.
Bryndís Halla Ólafsdóttir hljóp 1.500 m á tímanum 5:36,86 mín og vann til silfurverðlauna og boðhlaupssveit HSK/Selfoss vann til bronsverðlauna í 4×200 m boðhlaupi er þær hlupu á tímanum 1:54,15 mín. Sveitina skipuðu þær Anna Metta Ólafsdóttir, Helga Fjóla Erlendsdóttir, Arndis Eva Vigfúsdóttir og Adda Sóley Sæland
Fjölmargir voru að bæta sinn besta árangur og stóðu sig mjög vel þrátt fyrir að ná ekki á verðlaunapallinn. Magnús Tryggvi Birgisson bætti sinn besta árangur í 60 m hlaupi er hann kom í mark á tímanum 8,91 sek. Hróbjartur Vigfússon bætti sinn besta árangur í 300 m hlaupi er hann hljóp á tímanum 59,37 sek. Eðvar Eggert Heiðarsson hljóp 60 m grindahlaup á timanum 11,77 sek og bætti sinn besta árangur . Kári Sigurbjörn Tómasson bætti sinn besta árangur í hástökki um 9 cm er hann vippaði sér yfir 1,40 m og Björgvin Guðni Sigurðsson bætti sinn besta árangur í kúluvarpi er hann varpaði kúlunni 9,96 m.