Helga Guðrún Guðjónsdóttir, fyrrverandi formaður UMFÍ, og Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri HSK, voru sæmd Heiðurskrossi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands á framhaldsþingi 75. Íþróttaþings ÍSÍ í dag.
Helga varð fyrst kvenna formaður Ungmennafélags Íslands en hún gegndi því embætti á árunum 2007–2015. Helga var lengi í stjórn UMFÍ áður en hún varð formaður, hún var fyrst kjörin í stjórnina árið 1997 og sat í varastjórn fyrsta tímabilið. Hún varð svo meðstjórnandi árin 1999-2001 og varaformaður árin 2001-2007.
Engilbert Olgeirsson hefur starfað sem framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Skarphéðins frá árinu 1991. Hann var kjörinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ árið 2000 og sat þar til ársins 2009. Hann sat meðal annars í stjórn Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ og sem formaður Hnefaleikanefndar ÍSÍ. Hann situr í vinnuhópi ÍSÍ um Ferðasjóð íþróttafélaga og hefur gert frá upphafi þess vinnuhóps og eins situr hann í Heiðursráði ÍSÍ. Engilbert hefur verið leiðtogi á sambandssvæði HSK en einnig verið virkur í nefndum á vegum FRÍ, GLÍ og UMFÍ svo eitthvað sé nefnt.
Auk Helgu Guðrúnar og Engilberts voru Birna Björnsdóttir, Björgvin Þorsteinsson, Sigríður Jónsdóttir og Valdimar Leó Friðriksson sæmd Heiðurskrossi ÍSÍ.
Fleiri Sunnlendingar voru heiðraðir í dag því Selfyssingurinn Þráinn Hafsteinsson, fráfarandi stjórnarmaður í ÍSÍ, fékk gullmerki sambandsins fyrir frábær störf í þágu íþróttahreyfingarinnar. Þráinn á að baki fjögurra ára stjórnarsetu hjá ÍSÍ en undanfarna áratugi hefur hann sinnt fjölbreyttum leiðtogastörfum innan íþróttahreyfingarinnar á vettvangi sinna félaga, íþróttahéraða og Frjálsíþróttasambands Íslands.