Helga Guðrún Guðjónsdóttir tilkynnti í þingsetningarræðu sinni á 49. sambandsþingi UMFÍ sem haldið er í Vík í Mýrdal um helgina að hún gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku.
Helga Guðrún hefur gegnt stöðu formanns UMFÍ undanfarin átta ár.
Tveir hafa gefið kost á sér til formennsku, Haukur Valtýsson, núverandi varaformaður og Kristinn Óskar Grétuson sem setið hefur í varastjórn UMFÍ.
Á þinginu í morgun var Helga Guðrún sæmd gullmerki ÍSÍ. Það var Líney Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sem sæmdi hana merkinu.
Þingfulltrúar á sambandsþinginu eru um 130 talsins. Í setningarræðu sinni fór Helga Guðrún yfir verkefni hreyfingarinnar sem eru afar fjölbreytt. Þau hafa fengið góðar undirtektir og þátttaka í þeim hefur verið mikil. Helga Guðrún hvatti þingheim til að sameinast um að tala upp starfið og hafa gleðina með í för.
Í ræðu sinni sagði Helga Guðrún ennfremur að ungmennafélagshreyfingin gæti verið stolt af sínum störfum og starfseminni allri. Innan hreyfingarinnar eru unnin frábær störf og hún sagðist vera stolt af því að vera hluti af þeim hópi.