Fimleikakonan Helga Hjartardóttir og blakmaðurinn Kristján Valdimarsson voru kjörin íþróttamenn Hveragerðis árið 2010.
Kjörinu var lýst á uppskeruhátíð menningar-, íþrótta- og frístundanefndar Hveragerðis í Listasafni Árnesinga nú síðdegis.
Helga er lykilmanneskja í liði meistaraflokks Umf. Selfoss í hópfimleikum sem varð í 8. sæti á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Malmö í haust. Helga er ein af sex stúlkum í liðinu sem stökkva í öllum umferðum á trampólíni og dýnu og átti mikinn þátt í góðu gengi liðsins í Svíþjóð.
Kristján er landsliðsmaður í A-landsliði karla í blaki sem varð í 2. sæti í sínum riðli í Evrópukeppni smáþjóða á árinu. Kristján leikur með danska úrvalsdeildarliðinu Aalborg HIK og er lykilleikmaður í liðinu en það situr sem stendur í 4. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Hafsteinn, bróðir Kristjáns, leikur einnig með Aalborg HIK og A-landsliði Íslands en hann hreppti titilinn íþróttamaður Hveragerðis í fyrra.
Auk þess að verðlauna íþróttamenn ársins þá voru landsliðsmenn, Íslandsmeistarar og bikarmeistarar heiðraðir. Sjö einstaklingar kepptu með íslenskum landsliðum og fimm Íslandsmeistarar voru verðlaunaðir; fimleikastúlka, dansari og þrjár knattspyrnustúlkur. Þá voru liðsmenn unglingaliðs Hamars/Þórs í körfubolta heiðraðir en þeir urðu bikarmeistarar KKÍ í vor.