Helga Sóley íþróttamaður Hamars 2018

Helga Sóley Heiðarsdóttir með verðlaunin á aðalfundi Hamars. Ljósmynd/Hamar

Körfuknattleikskonan Helga Sóley Heiðarsdóttir var útnefnd íþróttamaður Hamars í Hveragerði árið 2018. Þetta var tilkynnt á aðalfundi Hamars sem haldinn var í dag.

Í tilkynningu frá Hamri segir að Helga Sóley sé ákaflega vel að þessum titli komin. Hún hefur verið lykilleikmaður í körfuknattleiksliði Hamars í meistaraflokki og verið öflug í unglingalandsliðinu einnig. Greinargerðin með útnefningunni er eftirfarandi:

Tímabilið 2017-2018 var Helga Sóley að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki, enda aðeins 15 ára gömul í upphafi tímabils. Hún varð strax lykilleikmaður í meistaraflokk Hamars sem spilaði í 1. deild. Helga vakti mikla athygli á vellinum fyrir mikla snerpu, ákveðni og dugnað á báðum endum vallarins þrátt fyrir ungan aldur og að vera að spila á móti töluvert eldri og reyndari leikmönnum. Á sama tíma var Helga Sóley að spila með sínum jafnöldrum í 10. flokki kvenna í sameiginlegu liði Hamars og Hrunamanna. Liðið endaði tímabilið með frábærum árangri og náði 4. sæti Íslandsmótsins. Helga Sóley var einn af lykilleikmönnum þessa liðs. Á vordögum ársins 2018 var Helga Sóley valin í U16 ára landslið Íslands. Hún spilaði með íslenska landsliðinu á Norðurlandamótinu í Helsinki og Evrópumótinu í Serbíu. Helga Sóley var í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu þetta ár og var til að mynda byrjunarliðsmaður í öllum leikjum liðsins. 

Auk Helgu Sóleyjar voru tilnefnd í kjörinu þau Stefán Þór Hannesson, knattspyrnumaður Hamars 2018, María Clausen Pétursdóttir, sundmaður Hamars 2018, Baldvin Már Svavarsson, blakmaður Hamars 2018, Margrét Guangbing Hu, badmintonmaður Hamars 2018 og Kolbrún Rósa Gunnarsdóttir, fimleikamaður Hamars 2018.

Fyrri greinBES í evrópsku samstarfsverkefni
Næsta greinHergeir framlengir við Selfoss