Í kvöld fór fram keppni í parafimi í Suðurlandsdeild Cintamani í hestaíþróttum. Það var mikil tilhlökkun í loftinu þar sem þetta var fyrsta grein deildarinnar í ár en 26 pör úr 13 liðum tóku þátt og var frábær stemmning í Rangárhöllinni á Hellu.
Eftir æsispennandi forkeppni leiddu Ólafur Þórisson og Sarah Maagaard Nielsen úr liði Húsasmiðjunnar. Á hæla þeirra komu Helga Una Björnsdóttir og Birna Olivia Agnarsdóttir úr liði Nonnenmacher og þriðju Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir og Vilborg Smáradóttir úr liði Black Crust Pizzeria.
Eftir að allir höfðu sýnt úrslitasýningar fór það svo að Helga Una og Birna sigruðu með einkunnina 7,53 og fast á hæla þeirra komu Ólafur og Sarah með einkunnina 7,48 og í þriðja sæti urðu Bjarney Jóna og Vilborg.
Að loknu fyrsta keppniskvöldinu er það því lið Nonnenmacher sem stendur efst með 96 stig en fast á hæla þeirra koma Húsasmiðjan með 86 stig og Árbæjarhjáleiga/Hjarðartún með 84 stig.
Næsta mót verður 21. mars í Rangárhöllinni þar sem keppt verður í fjórgangi.