Á morgun, laugardag, kl. 13 heldur Flugbjörgunarsveitin á Hellu torfærukeppni við Hellu, Sindra torfæruna.
Keppnin hefur verið fastur fjáröflunarliður í starfi sveitarinnar síðan 1973 en ekki hefur verið keppt á Hellu undanfarin þrjú ár og lofa keppnishaldarar góðri keppni þar sem lækurinn og mýrin verða á sínum stað.
Tuttugu keppendur eru skráðir til leiks og eru menn ýmist að keppa í fyrsta eða tuttugasta skipti á Hellu. Átta sunnlenskir ökuþórar eru í keppendahópnum og má þar fyrstan nefna Íslandsmeistarann í sérútbúna flokknum, Snorra Þór Árnason á Kórdrengnum.
Í sérútbúna flokknum keppa einnig Benedikt Helgi Sigfússon á Hlunknum, Daníel Gunnar Ingimundarson á Green Thunder og Helgi Gunnarsson á Gærunni. Í sérútbúnum götubílaflokki mæta Sigfús Gunnar Benediktsson á Snáðanum og Haukur Þorvaldsson á Joker.
Í götubílaflokki mæta til leiks þeir Eðvald Orri Guðmundsson á Pjakknum og Ívar Guðmundsson á Kölska.