„Hélt að þeir ætluðu að valta yfir okkur“

Ingi Rafn Ingibergsson skoraði glæsilegt mark fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann frábæran heimasigur á Víkingi Ólafsvík í Inkassodeild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á JÁVERK-vellinum urðu 2-1.

„Þetta var fínn leikur, þeir byrjuðu mjög sterkt og ég hélt að þeir ætluðu að valta yfir okkur á fyrstu tíu mínútunum. Þegar við náðum markinu þá breyttist þetta aðeins og mér fannst við heilt yfir betri. Þeir reyndu mikið langa bolta og gerðu það vel en við vorum þéttir og vörðumst vel,“ sagði Ingi Rafn Ingibergsson, annar markaskorara Selfoss í viðtali við fotbolti.net eftir leik.

Víkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og þjörmuðu vel að Selfossvörninni. Það var því gegn gangi leiksins að Pachu kom Selfyssingum yfir á 6. mínútu eftir frábæra skyndisókn. Þetta var í fyrsta skipti sem Selfyssingar komust yfir miðju í leiknum.

Eftir markið róuðu Selfyssingar taugarnar og vörðust vel. Leikurinn var jafn en Selfoss nýtti sín færi betur og á 37. mínútu skoraði Ingi Rafn Ingibergsson ótrúlegt mark af stuttu færi þegar hann laumaði boltanum milli fóta Marmolejo, markmanns Víkings Ó.

Seinni hálfleikur var tíðindalítill fyrsta korterið en þá galopnuðu Víkingar Selfossvörnina og Gonzalo Zamorano minnkaði muninn í 2-1.

Bæði lið fengu færi til að bæta við mörkum á síðustu tuttugu mínútunum en smátt og smátt fjaraði leikurinn út og þegar upp var staðið var sigur Selfyssinga bæði öruggur og sanngjarn.

Selfoss er í 8. sæti deildarinnar með sjö stig, eins og fimm önnur lið, en baráttan um miðja deild er hnífjöfn.

Fyrri greinFasteignamat á Suðurlandi hækkar mest í Hveragerði
Næsta greinMálefnasamningur nýja meirihlutans í Árborg