„Hér hafa allir lagt sitt af mörkum“

Carlos og Atli Kristinsson aðstoðarþjálfari leggja á ráðin um sigur í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Þetta er ótrúlegt, ég er ótrúlega stoltur. Okkur dreymdi um að komast upp um deild og draumurinn rættist hér í kvöld,“ sagði Carlos Martin Santos, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta, eftir sigurinn á Gróttu í kvöld.

Selfoss vann fjórða leikinn 27-26 og einvígið þar með 3-1 og Selfoss mun því leika í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

„Þetta er búið að vera mjög gott tímabil hjá okkur. Við börðumst til loka í deildarkeppninni og síðan er liðið allt búið að sýna frábæra frammistöðu í úrslitakeppninni. Það sem ég hef sagt við strákana er að lykillinn að þessu er liðsheildin. Við erum lið. Það er ekki eitt stórt nafn sem gerir meira en aðrir, hér hafa allir lagt sitt af mörkum,“ sagði Carlos í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Það blés ekki byrlega í fyrri hálfleiknum hjá Selfyssingum og þeir skoruðu sitt fyrsta mark eftir tæplega níu mínútna leik.

„Við vorum auðlesanlegir í fyrri hálfleiknum, vorum ekki að skjóta vel og ekki að gera það sem lagt var upp með. Við fórum vel yfir hlutina í hálfleik, hvað við þyrftum að laga og takturinn í liðinu var mun betri í seinni hálfleiknum. Við vissum hvað við þyrftum að gera í kvöld og það var ekki að ganga upp í fyrri hálfleik, kannski voru menn að finna fyrir einhverri pressu, ég veit það ekki, en við mættum af krafti í seinni hálfleikinn og sýndum okkar bestu hliðar. Við erum með ungt lið og auðvitað gerum við mistök en við megum það og mistökin eru til þess að læra af þeim,“ sagði Carlos ennfremur og bætti við að það hafi verið frábært að ná að klára einvígið gegn Gróttu á heimavelli.

„Algjörlega. Hér með öllu þessu frábæra fólki og stuðningsmönnum okkar. Selfyssingar hafa verið frábærir í stúkunni í úrslitakeppninni og það hefur verið sannkölluð ánægja að spila fyrir framan fólkið okkar. Andrúmsloftið er búið að vera frábært, leikmenn úr yngri flokkum hafa stutt okkur vel og mætt á leikina í Reykjavík og þessi stuðningur gefur okkur mikið. Selfoss er stórt félag í handboltanum, þetta er sannkallaður handboltabær og það er frábært að ljúka tímabilinu með því að ná þessum áfanga fyrir framan fólkið okkar,“ sagði Carlos að lokum.

Fyrri greinSelfoss aftur í deild þeirra bestu
Næsta greinSelfoss í úrvalsdeild: Sjáðu fagnaðarlætin