102. héraðsþing HSK verður haldið í Félagsheimilinu Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í dag og hefst stundvíslega kl. 17:00. Þetta er í þriðja sinn sem héraðsþingið er haldið í Árnesi, en þing sambandsins voru haldin þar árin 1972 og 1984.
Rétt til setu á þinginu eiga 126 fulltrúar frá 53 aðildarfélögum HSK og tveimur sérráðum sambandsins. Þá hefur eitt nýtt félag sótt um aðild að sambandinu og verður umsókn félagsins tekin til afgreiðslu á þinginu.
Mörg mál verða til umræðu á þinginu og stjórn HSK mun leggja fram 12 tillögur til afgreiðslu. Á þinginu kemur út vegleg ársskýrsla um starfsemi sambandsins á liðnu ári og ýmis sérverðlaun verða veitt.
Olga Bjarnadóttir sem hefur átt sæti í varastjórn HSK frá árinu 2016 gefur ekki kost á sér til endurkjörs, en hún var á síðasta ári endurkjörin í stjórn ÍSÍ og tók þá við embætti 2. varaforseta ÍSÍ. Aðrir stjórnarmenn HSK gefa kost á sér til endurkjörs.
Upplýsingar um þingið má sjá á heimasíðu HSK.