Ragnarsmótinu í handbolta lauk á Selfossi í dag en Haukar sigruðu á mótinu og unnu alla sína leiki.
Haukar lögðu Fram í dag, 27-26 en í fyrri leik dagsins tapaði Selfoss fyrir Val, 17-23. Hergeir Grímsson og Magnús Øder Einarsson voru markahæstir Selfyssinga í leiknum, báðir með fjögur mörk.
Í gærkvöldi léku Selfyssingar gegn Frömurum og lauk þeim leik með öruggum sigri Fram, 23-27. Hergeir og Magnús Øder voru einnig markahæstir Selfyssinga í þeim leik með fjögur mörk.
Í lok móts í dag fengu Haukar afhent sigurlaunin en einnig voru veitt einstaklingsverðlaun. Janus Daði Smárason, Haukum, var valinn besti leikmaðurinn, Hergeir Grímsson, Selfossi, var besti sóknarmaðurinn, Orri Gíslason, Val, var valinn besti varnarmaðurinn og liðsfélagi hans, Sigurður Ólafsson var besti markmaðurinn. Sigurður Örn Þorsteinsson úr Fram var markahæsti leikmaður mótsins.