Hornamaðurinn Hergeir Grímsson hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild Selfoss til þriggja ára.
Hergeir verður 22 ára gamall í dag, 25. febrúar, og heldur upp á afmælið með þessum nýja samningi. Það þarf vart að kynna Hergeir fyrir stuðningsmönnum Selfoss, enda er hann fæddur þar og uppalinn og hefur stimplað sig inn á undanförnum árum sem baráttuglaður lykilmaður í liði félagsins.
„Það er okkur mikil ánægja að Hergeir skuli framlengja við handknattleiksdeildina, en hann er búinn að vera lykilmaður í ungu og efnilegu liði Selfoss undanfarin ár,“ segir í tilkynningu frá deildinni.