Hergeir og Ragnar léku lausum hala 

Hergeir Grímsson er farinn í Stjörnuna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og KA skildu jöfn, 24-24, í bráðskemmtilegum leik í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld, en leikið var á Akureyri.

Selfyssingar höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléi, 11-13. Þeir höfðu áfram forskot inn í seinni hálfleikinn en síðustu fimmtán mínúturnar var jafnt á öllum tölum og leikurinn æsispennandi. KA var skrefinu á undan á lokamínútunum en Selfyssingar fengu síðustu sókn leiksins og úr henni jafnaði Hergeir Grímsson metin og kórónaði þar frábært kvöld í sókninni.

Aðeins fimm leikmenn Selfoss skoruðu mark í kvöld en Hergeir Grímsson og Ragnar Jóhannsson tóku að sér það verkefni að skora 75% marka liðsins. KA eyddi miklu púðri í að passa Atla Ævar Ingólfsson á línunni og hann komst ekki á blað en á meðan léku Hergeir og Ragnar lausum hala. Hergeir skoraði 11/2 mörk og Ragnar 7. Alexander Már Egan skoraði 3 mörk, Nökkvi Dan Elliðason 2 og Magnús Öder Einarsson 1.

Vilius Rasimas varði 16 skot í marki Selfoss og var með 41% markvörslu.

Fyrri greinStórt svæði á Suðurlandi rafmagnslaust
Næsta greinGrjóthrun úr Ingólfsfjalli orsakaði rafmagnsleysi