Hilmar Guðlaugsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennalið Selfoss í handbolta og munu hann og Sebastian Alexandersson þjálfa liðið í sameiningu.
Hilmar hefur þjálfað meistaraflokk kvenna hjá HK síðan 2010 og verið yfirþjálfari HK auk þess að þjálfa yngri flokka hjá Kópavogsliðinu með góðum árangri. Hann hefur einnig þjálfað U19 landslið kvenna.
Auk þess að þjálfa meistaraflokk Selfoss mun Hilmar þjálfa 3. flokk kvenna og koma að þjálfun fleiri yngri flokka. Hann mun einnig starfa hjá handboltaakademíunni.
Hilmar þekkir ágætlega til Selfossliðsins en hann er sambýlismaður Sigrúnar Örnu Brynjarsdóttur og hyggjast þau flytja á Selfoss í sumar. Sigrún hefur einnig þjálfað hjá HK undanfarin tvö ár en mun taka að sér þjálfun yngri flokka hjá Selfossi næsta haust auk þess sem hún mun spila með meistaraflokki.
Lúðvík Ólason, formaður handknattleiksdeildarinnar, sagði í samtali við sunnlenska.is að ný stjórn deildarinnar hefði mikinn metnað fyrir starfinu. Stefnan sé sett á að bæði karla- og kvennalið félagsins verði í topp fjórum í efstu deild um ókomna tíð.
„Við stefnum á að styrkja kvennaliðið og auka breiddina en allir núverandi leikmenn liðsins eru með samninga út næsta keppnistímabil. Við stefnum á að framlengja samninga allra leikmanna áður en tímabilið hefst í haust,“ sagði Lúðvík.