Tvö rauð spjöld fóru á loft í nágrannaslag Árborgar og Hamars í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Eftir mikla baráttu á báða bóga hafði Árborg 3-1 sigur.
Leikurinn var rólegur í fyrri hálfleik, Árborg var meira með boltann en færin voru ekki mörg. Hvergerðingar áttu góða spretti inn á milli og á 44. mínútu kom Brynjar Óðinn Atlason þeim yfir með marki af stuttu færi eftir langt innkast.
Staðan var 0-1 í hálfleik en í seinni hálfleiknum fór heldur betur að hitna í kolunum. Árborgarar sóttu stíft að marki Hamars og ljóst að eitthvað varð undan að láta. Á 63. mínútu slapp Sigurður Óli Guðjónsson innfyrir og jafnaði metin og tíu mínútum síðar skoraði Þorsteinn Daníel Þorsteinsson glæsilegt skallamark eftir hornspyrnu.
Skömmu síðar sauð allt uppúr eftir að Rodrigo Depetris, leikmaður Hamars, braut á Þormari Elvarssyni, beint fyrir framan varamannabekkinn hjá Árborg. Depetris uppskar rautt spjald og Ingimar Helgi Finnsson, aðstoðarþjálfari Árborgar, sömuleiðis eftir að hafa vaðið inn á völlinn til þess að lýsa skoðun sinni á atvikinu.
Eftir spjaldaúthlutunina var leik haldið áfram og fjórum mínútum síðar gerði Elvar Orri Sigurbjörnsson endanlega út um leikinn þegar hann slapp innfyrir Hamarsvörnina, lék á Gerard Tomas markvörð Hamars og skoraði í autt markið.
Manni færri áttu Hamarsmenn ekki afturkvæmt þó að þeir hafi reynt sitt ítrasta fram á við eftir þetta. Lokatölur urðu 3-1 og toppbaráttan í 4. deildinni er hlaupin í hnút.
Ýmir er með 25 stig á toppnum, Hamar hefur 20 í 2. sæti og þar á eftir koma KH, Tindastóll og Árborg, öll með 19 stig.