Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, gerði sér lítið fyrir og náði lágmarki inn á Norðurlandameistaramót í tugþraut í flokki 16-17 ára á Vormóti HSK sem lauk á Selfossvelli í kvöld.
Aðstæður á mótinu voru ekki þær bestu í kvöld, gjóla og kuldi en Hjálmar lét það ekki á sig fá. Hann sigraði í þrautinni með 6.025 stig en lágmarkið inn á NM er 6.000 stig. Heildarvindur í þrautinni var 2,1 en leyfilegur hámarksvindur samtals í 100 m hlaupi, 110 m grindahlaupi og langstökki er 6,0.
Hjálmar átti heilt yfir góða þraut en segja má að árangur hans í spjótkasti hafi toppað kvöldið þar sem hann bætti sinn besta persónulega árangur og kastaði 54,12 m sem gaf 650 stig.
Árangur Hjálmars er einnig héraðsmet í tugþraut í þessum aldursflokki en fyrra metið átti Dagur Fannar Einarsson frá árinu 2018, 5.965 stig. NM í fjölþrautum verður haldið í Reykjavík 15.-16. júní.
Bryndís og Michel settu Íslandsmet
Fleiri met féllu á mótinu. Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, setti Íslandsmet í spjótkasti í 15 ára flokki með 500 gr spjóti þegar hún kastaði 43,56 m bætti met Heklu Rúnar Ámundadóttur, ÍR, um heila 3,72 metra. Kastið er HSK met í bæði 15 og 16-17 ára flokkum en gamla metið átti eldri systir Bryndísar, Hildur Helga, 42,13 m.
Þá bætti Michel Thor Masselter, Ármanni, Íslandsmetið í 5.000 m hlaupi í fötlunarflokki T36 en hann sigraði í Jónshlaupinu á 24:52,98 mín og hlaut Brooks skópar frá Fætur toga fyrir metið.
Heimamenn í Umf. Selfoss voru sigursælastir á Vormóti HSK að þessu sinni, hlutu 29 gullverðlaun, 4 silfur og 5 brons en þar á eftir komu ÍR-ingar með 5 góðmálma af hverri gerð.