Hjálmar Vilhelm Íslandsmeistari pilta í sjöþraut

Hjálmar og Helgi á verðlaunapalli ásamt Garðari Gestsyni, UFA, sem varð í 3. sæti. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, varð Íslandsmeistari í sjöþraut í flokki 16-17 ára pilta á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum, sem fram fór í Laugardalshöllinni um síðustu helgi.

Hjálmar Vilhelm sigraði með yfirburðum með 4.445 stig sem er 6. besti árangur á landinu frá upphafi í þessum aldursflokki. Hann var aðeins 76 stigum frá því að bæta héraðsmet Dags Fannars Einarssonar í þessum aldursflokki. Hjálmar var öflugur heilt yfir og náði meðal annars frábærum tíma í 60 m grindahlaupi, 8,96 sek.

Helgi Reynisson, Umf. Þjótanda, varð í 2. sæti í sjöþrautinni með 3.668 stig. Helgi er fjölhæfur íþróttamaður en hann náði meðal annars frábærum árangri í hástökkinu þar sem hann bætti sig og stökk yfir 1,79 m.

Eins og sunnlenska.is greindi frá um helgina náðu Sunnlendingar í þrjá aðra Íslandsmeistaratitla á Meistaramótinu. Fjóla Signý Hannesdóttir varð Íslandsmeistari kvenna í fimmtarþraut, Helga Fjóla Erlendsdóttir sigraði í fimmtarþraut 16-17 ára stúlkna og Anna Metta Óskarsdóttir sigraði í fimmtarþraut 15 ára stúlkna.

Fyrri greinMisstu af mikilvægum stigum
Næsta greinHM veisla í miðbæ Selfoss