Nýlega lét Helgi Sigurður Haraldsson, af embætti formanns Frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss, eftir að hafa gegnt formennsku deildarinnar í 24 ár.
Helgi lét af formennsku í frjálsíþróttadeildinni um leið og hann varð formaður Ungmennafélags Selfoss. Við formennsku í frjálsíþróttadeildinni tók Hjalti Jón Kjartansson, sem sat áður í stjórn deildarinnar.
Helgi segir að á þessum tímamótum sé honum efst í huga allt það góða fólk sem hann hefur kynnst í starfi deildarinnar, bæði stjórnarfólk, þjálfarar, iðkendur og foreldrar iðkenda.
„Einnig sú frábæra uppbygging á aðstöðu til iðkunar frjalsíþrótta sem átt hefur sér stað á Selfossi, en hún jafnast á við það besta á landsvísu, bæði utan- og innanhúss. Formannssetan hefur verið mjög skemmtileg og lærdómsrík og ég skil sáttur við formannsembættið og óska nýjum formanni til hamingju með embættið og ég veit að hann mun sinna því vel. Hvort hann verður formðaður í í 24 ár verður síðan að koma í ljós,“ segir Helgi léttur að lokum.