Hjörvar með bæði mörkin í tapleik

Hjörvar Sigurðsson skoraði bæði mörk KFR. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Vonir KFR um sæti í úrslitakeppni 5. deildar karla í knattspyrnu urðu nánast að engu í kvöld þegar liðið tapaði gegn toppliði Mídasar á útivelli.

Hjörvar Sigurðsson kom KFR yfir strax á 5. mínútu en þremur mínútum síðar urðu Rangæingar fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Mídasarmenn röðuðu síðan inn þremur mörkum á stuttum kafla undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 4-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var markalaus allt þar til tvær mínútur voru eftir af leiknum. Hjörvar skoraði þá sárabótarmark fyrir Rangæinga og lokatölur leiksins urðu 4-2.

KFR er í 4. sæti B-riðilsins með 26 stig. Liðið þarf að vinna báða leiki sína sem eftir eru og treysta á að Hörður og Smári misstígi sig á lokasprettinum. Smáramenn þyrftu reyndar að misstíga sig all harkalega því liðið hefur talsvert betra markahlutfall en KFR.

Fyrri greinGleðilega hinsegin daga – um allt land
Næsta greinLoksins sigur hjá Ægi – Selfyssingar fengu skell