Selfoss tapaði fyrir Gróttu í lokaumferð Ragnarsmótsins í handbolta í kvöld, 23-27. HK vann Aftureldingu og sigraði á mótinu.
Grótta hafði frumkvæðið lengst af gegn Selfossi og leiddi 10-15 í hálfleik. Tinna Sigurrós Traustadóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoraði 7.
HK vann svo öruggan sigur á Aftureldingu, 19-29. HK vann alla leiki sína á mótinu og var því öruggur sigurvegari Ragnarsmóts kvenna.
Í mótslok voru veitt einstaklingsverðlaun fyrir mótið í heild. Markahæsti leikmaður mótsins var Tinna Sigurrós Traustadóttir, Selfossi, sem skoraði 23 mörk. Hún var valin sóknarmaður mótsins.
Varnarmaður mótsins: Alexandra Líf Arnarsdóttir, HK, var varnarmaður mótsins og liðsfélagi hennar, Margrét Ýr Björnsdóttir markmaður mótsins. Leikmaður mótsins var svo valin Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, einnig úr HK.