Hlaupahátíð í Hveragerði um helgina

Ljósmynd/Aðsend

Utanvegahlaupið Salomon Hengill Ultra fer fram í Hveragerði um helgina og verða fyrstu keppendur ræstir klukkan 08:00 á föstudagsmorgun og hlaupinu lýkur svo undir lok dags á laugardag.

Skipuleggjendur búast við um 900 þátttakendum og koma þeir frá að minnsta kosti 27 mismunandi þjóðlöndum. Hlaupið er núna haldið í ellefta sinn en það var fyrst haldið árið 2012. Hægt er að velja um sex mismunandi vegalengdir í Hengil Ultra, allt frá 5 km upp í 161 km.

Ljósmynd/Aðsend

Þátttakendur frá 27 löndum skráð til leiks
Salomon Hengill Ultra er hluti af Víkingamóta röðinni og er unnið í miklu og nánu samstarfi við bæjaryfirvöld í Hveragerði, Hjálparsveitina í Hveragerði og fjölmargar deildir Ungmennafélagsins Hamars enda útheimtir mótið mikið magn starfsfólks og stendur undirbúningur fyrir það nánast allt árið. Í dag eru 99 erlendir þátttakendur skráðir til leiks og þau koma frá 27 mismunandi löndum. Flest þeirra eru frá Bretlandi eða tuttugu, þá eru átjan skráð til leiks frá Bandaríkjunum og tólf fulltrúar hlaupa undir grænlenskum fána. Þá eru níu Frakkar og sjö Danir meðal þátttakenda en allt danska landsliðið hljóp í Hengil Ultra árið 2022.

Ljósmynd/Aðsend

Sölusýning og bæjarhátíðarbragur í hjarta Hveragerðis
Mótsmiðjan er í hjarta Hveragerðis við bæjarskrifstofurnar en þar er rásmark allra vegalengda. Skátarnir í Hveragerði verða með hoppukastala og afþreyingu fyrir yngstu áhorfendurna. Bylgjulestin verður í bænum í tengslum við mótið og þá verður haldin sölusýning í Íþróttahúsinu í Hveragerði, svokallað Hengils Expo en þar er sýndur og seldur varningur sem tengist utanvegahlaupum og útivist og hægt er gera þar góð kaup og er hún opin frá 17:00 á föstudeginum og frá 07:00 um laugardagsmorguninn.

Ljósmynd/Aðsend

Bein útsending frá mótinu
Mótið verður í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum mótsins og á Vísir.is. Stjórnendur útsendingarinnar verða dagskrárgerðarfólkið Ósk Gunnarsdóttir og Garpur Ingason Elísabetarson og munu þau njóta atfylgis sérfræðinga bæði hérna heima og í Innsbruck Stubai. Tæknilegir stjórnendur útsendingarinnar eru tæknimenn frá Skjáskoti.

Ljósmynd/Aðsend

Margir landsþekktir þátttakendur
Meðal keppenda í ár er okkar þekktasti utanvegahlaupari Elísabet Margeirsdóttir, þá er Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir meðal keppenda. Elísabet var fyrst kvenna til að klára 106 km brautina í Hengil Ultra árið 2017 og Ragnheiður fyrst kvenna til að klára 161 km brautina í Hengil Ultra árið 2021. Þá taka einnig þátt hlauparar eins og Búi Steinn Kárason sem var fyrstur karla til að klára 161 km hlaupið árið 2021 og Sigurjón Ernir Sturluson hlaupaþjálfari skráðir svo einhverjir séu nefndir til sögunnar.

Heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum á sama tíma í Austurríki
Nokkrir af bestu hlaupurum landsins verða þó fjarverandi í ár því á sama tíma fer fram heimsmeistararmótið í utanvegahlaupum í Innsbruck Stubai í Austurríki og verður útsending Hengils Ultra í beinu sambandi við liðstjóra landsliðsins þar og fær myndbönd og fréttir frá liðinu beint þaðan. Útsendingin verður því alger utanvegahlaupaveisla fyrir alla sem hafa gaman af utanvegahlaupum hvar sem þeir eru staddir í heiminum.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinLeikskólagjöld felld niður í verkfalli
Næsta greinForeldrafélagið gaf Vallaskóla grill