Á laugardaginn kemur, þann 24. september kl. 10:00, munu Sólheimabúar og hlaupahópurinn Frískir Flóamenn standa fyrir almenningshlaupi.
Hlaupið verður frá Borg í Grímsnesi og að Sólheimum en það eru um 9 km. Einnig er hægt að ganga eða hjóla, en meðlimir úr hjólahópi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands munu leiða hjólreiðarnar. Eftir hlaup verður hressing í Grænu könnunni og þeir sem vilja geta farið í sundlaugina á Sólheimum.
Frískir Flóamenn munu afhenda framfarabikar sem þeir gáfu Sólheimum í fyrra, en bikarinn hlýtur Sólheimabúi sem sýnt hefur framför eða góða ástundun í íþróttum s.l. ár. Afhendingin fer fram í Grænu könnunni kl. 13:00.
Allir eru velkomnir að taka þátt í hlaupinu! Áhugasamir mæta við Verslunina Borg að Borg í Grímsnesi á laugardaginn kemur kl. 10:00!
Hlaupið er liður í alheimsátakinu Moving Planet, sem miðar að því að minnka kolefnislosun í heiminum www.moving-planet.org. Þennan dag eru allir hvattir til að leggja bílnum og hjóla, ganga eða hlaupa til að leggja málefninu lið.
Nánari upplýsingar gefur Katrín, katrin@solheimar.is og í síma 480 4483.