Naflahlaupið var ræst í morgun í annað sinn á Hvolsvelli. Hlaupnar eru þrjár vegalengdir, 5, 13 og 21 km. Hlaupararnir eru 70-80 talsins en voru á annan tug í fyrra.
Naflahlaupið var fyrst haldið í fyrrasumar en nafnið er vísun til þess að um nafla alheimsins sé að ræða því að á síðasta ári beindust allra augu að þessu svæði vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.
Hlaupið var viðleitni einstaklinga á svæðinu til að sýna fram á að þrátt fyrir allt væri öllu óhætt, í Naflanum væri hreint og tært loft og góðar aðstæður til útivistar.
Hlaupararnir lögðu upp frá þremur stöðum í morgun en endamarkið er við Hótel Fljótshlíð í Smáratúni.
Eins og í fyrra hefur fólk getað heitið á hlauparana. Ágóði áheita rann á síðasta ári til Leikskólans Arkar á Hvolsvelli en nú munu áheit renna til starfsemi sjúkraflutninga á Hvolsvelli sem er íbúum Rangárvallasýslu afar mikilvæg.