Hlynur fékk örn í afmælisgjöf

Íslenska landsliðið í golfi endaði í 19. sæti á heimsmeistaramóti áhugamanna sem lauk í Argentínu í kvöld.

„Við erum mjög sáttir með þetta. Mér skilst að þetta sé besti árangur Íslands á HM frá upphafi þannig að við erum bara ánægðir. Veðrið er búið að vera að stríða okkur og aðstæðurnar í dag voru rosalega erfiðar en ég fékk þó örn í afmælisgjöf á fyrstu holu dagsins,“ sagði Hlynur Geir í samtali við sunnlenska.is en hann hélt upp á 34 ára afmælið í dag.

Afmælisbarnið lék á 78 höggum í dag eða 6 yfir pari, Ólafur Björn Loftsson lék á 76 höggum en Guðmundur Ágúst Kristjánsson náði sér ekki á strik og lék á 84 höggum eða 12 yfir pari.

Íslenska liðið lék alls á 447 höggum eða 24 höggum meira en heimsmeistarar Frakka.

Danir urðu í öðru sæti á mótinu og Bandaríkjamenn tóku þriðja sætið.

Í keppni kylfinga varð Hlynur í 31. sæti á mótinu á 9 höggum yfir pari.

Fyrri greinRjúpnaskytta fannst við Svalaskarð
Næsta greinRjúpuungar skemmta á Skeiðflöt