Hlynur Geir illa meiddur á Íslandsmótinu

Selfyssingurinn Hlynur Geir Hjartarson hafnaði í 13. sæti á Íslandsmótinu í höggleik sem lauk á sunnudaginn í Leirunni.

Hlynur hefur nokkrum sinnum blandað sér í toppbaráttuna á Íslandsmótinu, og því væri árangurinn ekki sérstaklega eftirtektarverður nema fyrir þær sakir að Hlynur fór í gegnum mótið með slitið liðband í ökkla. Ekki nóg með það heldur glímdi hann einnig við bakmeiðsli og þurfti því að harka verulega af sér til að klára mótið.

„Ég var mjög slæmur eftir fyrsta hring og á föstudagsmorgninum fór ég til sjúkraþjálfara og hann greindi þetta eiginlega strax. Hann var ekkert voðalega hrifinn af því að ég myndi klára mótið. Fyrst ég var byrjaður og staðan var alveg þokkaleg, þá ákvað ég að klára dæmið. Ég kveið hins vegar mikið fyrir helginni þegar færi að rigna og kólna enda var það mjög slæmt,“ sagði Hlynur í samtali við Morgunblaðið sem greinir frá þessu í dag.

mbl.is

Fyrri greinHeilsuþorp á teikniborðinu
Næsta greinHlutavelta á Klaustri