Hlynur Geir Hjartarson, Golfklúbbi Selfoss, varð í 3. sæti í fyrsta móti sumarsins á Eimskipsmótaröðinni í golfi sem lauk í gær.
Hlynur lék seinni hringinn í Leirunni á 71 höggi eða einu höggi undir pari og lék hringina tvo á samtals tveimur höggum yfir pari. Hann var mjög sáttur með frammistöðu sína í mótinu.
„Ég er mjög ánægður. Ég var virkilega ánægður með fyrri hringinn og náði að halda haus sem var aðalmálið í rokinu. Í dag (í gær) átti ég frábæran lokasprett. Ég var kominn þrjú högg yfir par eftir 13 holur og fæ svo fjóra fugla og hefði fengið fimm í röð ef ég hefði ekki rétt misst pútt fyrir fugli á 17. holu. Þetta var flottur dagur. Þetta var frábær rispa og ég er greinilega í fínu formi,“ sagði Hlynur að móti loknu í samtali við kylfingur.is.
„Ég ætla að njóta þess að spila golf í sumar og halda mér ferskum. Ég alltaf góður annað hvert ár og spilaði lítið í fyrra vegna meiðsla. Ég er mjög góður á sléttu árunum,“ sagði Hlynur hress.