Mikið er um að vera í miðbæ Selfoss næstu daga og vikur þar sem Sviðið og Miðbar lofa mikilli HM veislu. Allir leikir landsliðsins verða sýndir í beinni og verða tilboð og leikir í gangi. Hægt er að panta borð fyrir vinahópa og vinnustaði á vefnum www.midbar.is en fyrsti leikurinn er á morgun, fimmtudag.
„Já það gengur bara mjög vel, hér hafa nokkrir hópar tekið frá borð og lítur allt út fyrir að hér verði heljarinnar stemning. Við ætlum að skella í nokkra leiki, til dæmis ef leikmenn frá Selfossi í landsliðinu skora 8 eða fleiri mörk samtals í fyrsta leik að þá opnum við dælurnar og gefum frían bjór. Selfoss handbolti verður hérna með sitt árlega bjórkvöld eftir Softball mótið næsta laugardag, þannig að það er mikil veisla framundan,“ segir Linda Björk Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri.
Á Sviðinu verður einnig HM Zone, sem margir þekkja frá Hjörvari Hafliða og hans gengi, þeir verða á Sviðinu í fyrsta leik og í beinni útsendingu á Doc Zone.
Janus Daði hefur birst í auglýsingu frá ykkur, megum við búast við meira af honum í auglýsingum frá ykkur?
„Við gerðum laufléttan auglýsingasamning við Janus Daða og já, það á meira eftir að koma frá þeim meistara,“ segir Linda Björk að lokum.